3.8.2011 | 01:48
"Náttúra Skaftárhrepps verður aldrei metin til fjár"
Stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs með friðlýsingu Langasjávar, Eldgjár og nærliggjandi svæða er mikið fagnaðarefni allra sem unna náttúru Íslands.
Því miður er ekki full sátt um stækkun þjóðgarðsins og því að síður er sátt um fyrirhuguð virkjanaáform í Skaftárhreppi. Aðalskipulagstillagan um stækkun Þjóðgarðsins varð að kosningamáli. Flestir íbúar Skaftárhrepps sögðu fátt um tillögur að fyrirhugðum fjórum virkjunum á aðalskipulagi sveitarfélagsins. En nú er heldur betur að koma í ljós að ekki er nein sátt um fyrirhugaðar virkjanir, þar með talin er umrædd Búlandsvirkjun. Málamyndasáttin milli framboðslistana um breytingarnar á aðalskipulagstillögunni er ekki merki um neina sátt milli íbúa sveitarfélagsins, heldur einungis á milli nokkurra sveitarstjórnarfulltrúa sem telja eflaust að með því hafi þeir unnið samfélaginu meira gagn en með því að halda fram sínum málstað og viðhalda deilum innan sveitarstjórnar.
Það er þekkt dæmi frá öðrum sambærilegum samfélögum að þegar orkufyrirtækin hafa komið sér fyrir á bak við tjöldin og fengið sveitarstjórnir á sitt band með fagurgala og hástefndum loforðum um mikla atvinnuuppbyggingu, að þá verður brestur í innviðum viðkomandi samfélagsins. Í stað þeirrar jákvæðu uppbyggingar sem reiknað var með kemur upp óeining og ósætti milli fólks. Hagsmunir orkufyrirtækjanna verða ráðandi og ryðja öðrum atvinnugreinum í burtu og ávinningurinn verður því lítill og viðbúið að fólk flytji brott af svæðinu.
Skaftárhreppur er fyrst og fremst landbúnaðarhérað og einnig mjög vaxandi ferðamannahérað. Báðar þessar undirstöðuatvinnugreinar lifa fyrst og fremst af náttúrunni. Það er því mikil skammsýni að leggja lag sitt við jafn ágenga atvinnustarfsemi og orkuvinnslu, sem auk þess gengur gegn hagsmunum helstu atvinnugreina og langflestra íbúa Skaftárhrepps .
Í fréttaskýringu Mbl. er sagt að N- listinn hafi unnið kosningarnar í Skaftárhreppi. Bloggari er íbúi í Skaftárhreppi og kannast ekki við neitt framboð til sveitarstjórnar undir þeim listabókstaf. Listi sá sem Guðmundur Ingi Ingason oddviti leiddi er " Ó- listi".
Það er rétt hjá oddvitanum að Skaftárhreppur er mjög stórt sveitarfélag , um 7% af Íslandi. Svæðið er mjög verðmætt og nánast óraskað náttúrusvæði , það allra kvikasta á landinu vegna mikillar eldvirkni og er þessvegna í sífelldri sköpun . Það er því grafalvarlegt að sveitarstjórnarfólk skuli vera tilbúið til þess að fórna þessu frábæra svæði fyrir skammtímagróða frá orkufyrirtækjum. Aðeins ein virkjun eyðileggur heildarmyndina og óspillta ímynd svæðisins.
Skaftárhreppur allur með sínum einstæðu náttúruperlum á heimsvísu verður ekki metin til fjár. 36 milljarðar eru smáaurar í því sambandi.
Hér eiga því vel við fleyg ummæli Þorvaldar Thoroddsen náttúrufræðings sem hann lét fjalla árið 1884. Erum við virkilega ennþá stödd á næstsíðustu öld? Höfum við ekkert lært í 117 ár ?
Því miður eimir eftir sums staðar af hinum gamla húsgangshætti, að hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama hvort gerður er stórskaði öldnum og óbornum
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.8.2011 kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ólafía Jakobsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar